Viktor Örn er einn virtasti matreiðslumaður Íslands en hann hlaut titilinn kokkur ársins árið 2013, sigraði Norðurlandameistaramót matreiðslumanna árið 2014 og náði einum besta árangri íslensks matreiðslumanns þegar hann hlaut bronsverðlaun í hinni virtu matreiðslukeppni Bocuse D‘or árið 2017, auk þess sem hann var um árabil í kokkalandsliðinu. Hann byrjaði að vinna í eldhúsi 15 ára gamall, sem uppvaskari og aðstoðarmaður á Kaffi Victor, og fljótlega komst hann á námssamning hjá Hótel Sögu. Honum finnst skemmtilegast að elda góða steik, ekki síst eitthvað á beini, en fyrir utan matreiðsluna hefur hann áhuga á ferðalögum, stangveiði og mótorkrossi. Allra best er þó að borða góða steik og drekka gott rauðvín með. Viktor er í sambúð og á eitt barn.
Þrátt fyrir ungan aldur er Hinrik Örn einn færasti matreiðslumaður landsins en hann sigraði keppnina Kokkanemi ársins 2017 og landaði silfri á norrænu nemakeppninni árið 2018. Hann var aðstoðarmaður Viktors Arnar á Bocuse D‘or keppninni árið 2017 þar sem þeir unnu til bronsverðlauna. Hinrik var í landsliði matreiðslumeistara árið 2018 og árið 2018 sigraði hann Evrópukeppnina í matreiðslu. Hinrik ólst upp í bransanum, bjó á hóteli fyrstu 18 ár ævi sinnar þar sem móðir hans rak Hótel Heklu. Hann tók fyrstu kokkavaktirnar 15 ára og fór á nemasamning hjá Hótel Sögu 17 ára. Hinrik er í sambúð, hann hefur áhuga á laxveiði og ferðalögum, og hefur unun að góðri steik með góðu rauðvíni.